20.8.08

IKEA-sjónvarpsbekkir

Á heimasíðu Rebekah Sigfrids innanhússarkitekts fann ég þessa mynd, þar sem tveir Bonde-sjónvarpsbekkir frá IKEA eru notaðir undir sjónvarpið. Mér finnst þetta koma ótrúlega vel út og því góð lausn á viðráðanlegu verði.

19.8.08

Kommóða Wis-design

Í framhaldi af umfjöllun um Drawerment þá verð ég að benda á þessa kommóðu, en hún vakti heilmikla athygli í Mílanó á sýningunni Salone Satellite í vor. Hönnuðirnir eru sænskar stelpur, Lisa Widén og Anna Irinarchos, en þær kalla sig Wis-design.

Orla Kiely - fallega ferðataskan

Í þessa ferðatösku hefur mig langað mjög lengi og líka svo margt annað frá írska hönnuðinum Orlu Kiely en þar sem hennar dót er alls ekki ódýrt (og núna kreppa) þá lét ég mér nægja að fjárfesta í svona dásamlegri minnisbók og er alsæl með hana. Kisan selur Orlu Kiely á Íslandi.

17.8.08

Drawerment - skúffur á vegg

Tékkneski hönnuðurinn Jaroslav Jurica úr hönnunargrúppunni Hubero Kororo er höfundur Drawerment, sem er skúffusístem sérhannað fyrir skrifstofu hollenska hönnunarfyrirtækisins Demakersvan í Rotterdam. Svona lýsir hönnuðurinn verkinu: "The Drawerment is a small anniversary of 15 years of “Tejo Remy Chest of Drawers” - A piece of art that let loose the ‘rigid’ era of product design at that time. Drawerment is a composition of drawers collected from old office furniture. Flying freely over walls, desks and floors, they break up tight office atmosphere. As a herd, they sometimes group together but naturally go their own way when being used." Á tveimur neðstu myndinni eru svo skúffur Tejo Remy - You Can't Lay Down Your Memory - sem hann hannaði árið 1991 undir merkjum Droog Design.

14.8.08

Arkitektúr í Hong Kong

Ljósmyndarinn Michael Wolf er Þjóðverji, alinn upp í Bandaríkjunum og býr í Kína. Árið 2006 var hann með sýningu í New York sem hann kallaði Architecture of Density og sýndi þar seríu mynda sem teknar voru í Hong Kong. Þetta eru afar heillandi myndir en um leið ótrúlega sorglegar.

Fjölnota ungbarnavagga

Þessi fallega bastvagga frá Re-produkte (sem fæst í Epal) minnir okkur svolítið á Blindrafélagsvöggurnar sem við þekkjum öll, nema hvað þessi er fjölnota! Þegar barnið vex upp úr vöggunni má nota körfuna sjálfa t.d. sem dótakörfu og grindin nýtist svo sem stell undir rugguhest sem fylgir með. Síðan fæst ruggustóll í stíl sem má festa við vögguna, þannig að barnið vaggi með þér. Mjög sniðugt t.d. fyrir magakveisubörn.

Danska Menntamálaráðuneytið

Fyrir þremur árum síðan var Louise Campbell fengin til að endurhanna innviði danska Menntamálaráðuneytisins. Þvílíkt draumaverkefni! Ekki veit ég hvernig er innanstokks í okkar íslenska Menntamálaráðuneyti en ég býð mig hér með fram ef þörf er á breytingum á þeim bæ.

13.8.08

Dönsk hönnun

Þessi fallegi kertastjaki var hannaðar árið 1955 (sama ár og Arne Jacobsen hannaði Sjöuna) af Jens Harald Quistgaard, en hann lést fyrr á þessu ári 88 ára að aldri. Í bókinni Scandinavian Design sem Taschen gaf út er fjallað um Quistgaard og fær þessi stjaki heilsíðumynd - semsagt notaður sem "íkon" fyrir skandinavíska hönnun á síðustu öld. Kertastjakinn er oft fáanlegur í erlendum netverslunum (sem sérhæfa sig í hönnun miðrar síðustu aldar) og þá er hann yfirleitt verðlagður á bilinu 3000-5000 kr. Það má því fá fallega og klassíska hönnun fyrir lítið fé.

11.8.08

Afmæliseldhús

Þessa fínu mynd fann ég í Living Etc. Ég gæti vel hugsað mér þetta eldhús, með þessari stóru og fínu hurð beint út í garðinn og afmælistertu á borðum. Og svo eru fánarnir líka voða fínir.

Blossom & Bill

Þessa skemmtilegu bakka sá ég fyrst í skandinavískri búð í Oxford í fyrra. Fannst mér að þarna værum við mætt, hjónaleysin í öllu okkar veldi - Guðni þó full búlduleitur. Hin sænska Sandra Isaksson á heiðurinn af þessari góðu teikningu en hún hefur einnig gert allskonar aðra sniðuga hluti.

Danskir ævintýraóróar

Fyrir 8 árum keypti ég Illums Bolighus óróa með litla ljóta andarunganum. Hann er enn í miklu uppáhaldi og ég mæli með slíkum t.d. í sængurgjafir. Á heimasíðu Flensted Mobiles gefur að líta heilmikið úrval óróa og eru margir ansi skemmtilegir.

6.8.08

Plastblúndur í eldhúsið

Þennan álitlega blúndurenning fann ég á einhverri ágætis síðu, en Present Time er framleiðandi (einu sinni fengust vörur frá þeim í Byggt og búið og kannski fæst þetta bara einmitt þar). Plastblúndur eru ansi mikið kitch en þetta lítur vel út (allavega á þessari mynd). Blúndur eru jú það sem koma skal í haust, allavega hjá Prada og félögum hennar.

Flóamarkaður 16. ágúst !

5.8.08

Hressileg viskustykki

Unity Peg framleiða þau hressilegustu viskustykki sem ég hef séð lengi. Þetta eru skemmtilegar teikningar sem jafnvel mætti skella í ramma til að bjarga bráðabirgðaeldhúsum.

4.8.08

Undir áhrifum Salvarar ...

Fyrirtækið Bookhou er kanadískt og framleiðir allskonar ágætis hluti. Ég hef ekki hugsað mér að gerast nein kópíulögga hér en þetta er athyglisvert! Mér finnast þessir kanadísku hönnuðir fullmikið undir áhrifum frá Fauna-línu Salvarar.

Heimilistæki barna

Börn hafa gaman af því að leika sér með allskonar lítil heimilistæki. Eldavélar eru fáanlegar með allskonar móti en minna úrval er af þvottavélum (enda kannski lítið fjör að vera alltaf að setja í vél). Ég rakst á þessar pappavélar, eldavél og þvottavél hjá ítölsku fyrirtæki sem heitir Nume. Einfaldar og fallegar og lítið mál að taka þær saman og geyma þegar börnin eldast.

3.8.08

Og meira af góðum hugmyndum ...

... sem fleiri en einn hafa fengið í einu. Þessar karöflur með glösum sem virka sem lok eru bæði til frá Normann Copenhagen (vatnskarafla með 5 plastglösum) og frá Royal VKB (bæði svört og úr stáli). Plastglösin snúa jú ýmist upp eða niður og svo er annað efni í karöflunum, en engu að síður - svolítið svipaðar. Karöflurnar fást allar í Epal.

Krossviðarhausar í svörtu og hvítu

Krossviðarhreindýrahöfuðin (og elgurinn og bambinn) sem fengust í versluninni Þremur hæðum eru nú fáanleg í svörtu og hvítu. Ég er mikil áhugamanneskja um hreindýrahöfuð almennt og því hef ég verið skotin í þessum hausum ansi lengi. Hönnuðir eru Big-Game og framleiðandi Vlaemsch.

Salvör

Fauna-púðarnir, hannaðir af Salvör, eru framleiddir í Brooklyn og fást hér í Kisunni. Ég hef lengi verið að velta því fyrir mér hvort að þessi Salvör væri íslenskur hönnuður eða hvaðan þetta nafn kæmi. Nú er komin skýring á því. Í stuttu viðtali sem ég fann við Ross Menuez, stofnanda Salvör, kemur fram að dóttir hans heiti þessu nafni, konan hans sé íslensk og langalangamma hennar hafi heitið Salvör. Þannig er nú það.

Studio Maartje Steenkamp

Maartje Steenkamp er mjög áhugaverður hönnuður. Hún er hollensk, fædd 1973 og hefur rekið studio í Haarlem í Hollandi síðan 2002. Margir kannast við barnastólinn hennar, Highchair frá 2003 sem Droog framleiðir en nokkrum árum síðar kom hún svo með Child Child Chair, sem er stóll fyrir ungabarn + eldra barn. Mjög skemmtileg hugmynd en dálítið plássfrek. Hvar myndi maður svosem hafa svona sæti? Kæmist allavega ekki fyrir í eldhúsinu mínu ... en lúkkar vel og fer örugglega vel í stóru og flottu iðnaðarhúsnæði (sem kannski flesta dreymir um).